
Hanna Ellert SH 4 sem keypt var til Húsavíkur í sumar hefur fengið nýtt nafn og var báturinn merktur í morgun.
Báturinn heitir í dag Njörður ÞH 444 en eigandi hans er Eyrarvík ehf. sem keypti bátinn til Húsavíkur. Að því fyrirtæki standa Sigurjón Sigurbjörnsson og Sigurgeir Pétursson en þeir hyggjast m.a nota bátinn til Flateyjarferða en báðir eiga þeir ættir að rekja þangað.
Njörður er ekki ókunnugt nafn í flota Húsvíkinga. Það tengist báðum eigendum bátsins að nokkru og nafngiftingin því engin tilviljun.
Þannig var að 1. mars 1961 keypti Olgeir Sigurgeirsson í Skálabrekku á Húsavík Njörð ÞH 44 ásamt sonum sínum Sigurði og Hreiðari.
Seljendur voru Sigurbjörn Kristjánsson ofl. á Húsavík en Sigurbjörn var faðir Sigurjóns sem fyrr er nefndur og Olgeir afi Sigurgeirs Péturssonar.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution