Gissur Hvíti SF 55 á toginu

964. Gissur Hvíti SF 55 ex Bára GK 24. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Gissur Hvíti Ff 55 frá Hornafirði er hér að rækjuveiðum norðan við land en myndina tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44.

Upphaflega hét báturinn Bára SU 526 frá Fáskrúðsfirði og var í eigu Árna Stefánssonar. Síðar var hann seldur 1972 Garðari Magnússyni í Ytri-Njarðvík og varð báturinn, sem smíðaður er Þrándheimi í Noregi 1964, þá Bára GK 24. 

Silfurnes hf. á Hornafirði keypti bátinn 1978 og fékk hann nafnið Gissur Hvíti SF 55. Það var svo í nóvember 1985 sem Særún hf. á Blönduósi keypti bátinn sem varð Gissur Hvíti HU 35 og var gerður út til rækjuveiða. 

Gissur Hvíti HU 35 var seldur til Vestmannaeyja eftir aldamótin síðustu, árið 2002 nánar tiltekið. Bergur-Huginn keypti hann en seldi svo Narfa hf. bátinn sem fékk þá nafnið Narfi VE 108. 

Upphaflega var í bátnum 450 hestafla Stork aðalvél enn 1983 var sett ný vél í hann, 800 hestafla Callesen. Báturinn mældist upphaflega 216 brl. að stærð en var 1973 og mældist þá 165 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður á Akureyri 1989 og þó nokkrum árum síðar var skipt um brú.

Það var síðan árið 2008 sem Oddur Sæmundsson í Keflavík keypti bátinn og nefndi Stafnes KE 130. 

Stafnes KE 130 hefur verið afskráð af skipaskrá.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Naustavík EA 151

1417. Naustavík EA 151 ex Sólrún EA 151. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Naustavík EA 151 hét upphaflega Sólrún EA 251 og var smíðuð í Skipasmíðastöð KEA árið 1975.

Báturinn var smíðaður fyrir Sólrúnu h/f á Litla-Árskógssandi og eftir að hafa átt bátinn í tæpa þrjá mánuði breyttu eigendurnir númerum í EA 151. Sólrún var síðasti báturinn sem var smíðaður hjá Skipasmíðastöð KEA.

Sólrún EA var 28 brl. og er því báturinn er enn í fullu fjöri sem hvalaskoðunarbátur á Húsavík. Hann var búinn 300 hestafla Volvo-Penta aðalvél.

Árið 1984 var sett í bátinn 300 hestafla Mitsubishi aðalvél.

Í janúar 1987 er báturinn seldur Naustavík s/f á Árskógssandi og fær þá nafnið Naustavík EA 151. Sumarið 1999 keypti Fiskkaup h/f bátinn og nefndi Ásrúnu RE 277. Ári síðar kaupir Ingimundur h/f Ásrúnu og nefnir Helgu RE 47. Sumarið 2002 fékk báturinn nafnið Breiðdælingur SU 62 og var eigandi Fossabrún ehf. á Breiðdalsvík.

Norðursigling ehf. á Húsavík keypti bátinn haustið 2002 og sumarið 2003 hóf hann siglingar með ferðamenn undir nafninu Bjössi Sör.

Ný Mitsubishi aðalvél var sett í bátinn árið 2018 og er hún 310 hestöfl.

1417. Naustavík EA 151 ex Sólrún EA 151. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þinganes og Steinunn

2966. Steinunn SF 10 – 2970. Þinganes SF 25. Ljósmynd Magnús Jónsson 2020.

Það styttist í að Hornafjarðarskipin Þinganes SF 25 og Steinunn SF 10 haldi til veiða en þessa mynd tók Maggi Jóns af þeim í Hafnarfjarðarhöfn í dag.

Þinganes SF 25 og Steinunn SF 10 eru í hópi sjö systurskipa sem norska skipasmíðastöðin VARD smíðaði fyrir íslenskar útgerðir. Þinganes og Steinunn voru smíðuð í Víetnam en fullkláruð í Noregi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hrafn Sveinbjarnarson GK 255

1028. Hrafn Sveinbjarnarsonn GK 255. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 var smíðaður árið 1967 fyrir Þorbjörn hf. í Grindavík. Einn 18 báta sem smíðaðir voru í skipasmíðastöðinni V.e.b Elbewerft í Boizenburg í Austur Þýskalandi. 

Í 4 tbl. Faxa sem kom út 4. apríl 1967 sagði svo frá komu bátsins til landsins:

Á skírdag kom til Grindavíkur nýr bátur smíðaður í Austur-Þýzkalandi. Hann heitir Hrafn Sveinbjarnarson GK 225 og er hann 270 tonn að stærð. Eigandi er Þorbjörn h.f., Grindavík.

Mb. Hrafn Sveinbjarnarson er þriðji bátur Þorbjarnar h.f. og bera þeir allir sama nafn.

Báturinn er smíðaður í Austur-Þýzkalandi og hófst smíði hans fyrir tæpu ári. Hann er búin öllum nýjustu og fullkomnustu siglingar- og fiskleitartækjum. Aðalvél er af gerðinni Listar-Blackstone, 660 hestöfl. Auk þess eru tvær hjálparvélar af sömu gerð.

Fárviðri hreppti báturinn á hafinu alla leið til Grindavíkur að undanskildum síðasta sólarhringnum. Reyndist Hrafn Sveinbjarnarson að dómi allra skipverja afburða gott sjóskip.

Skipstjóri er Pétur Sæmundsson frá Keflavík, ungur maður en þekkt aflakló. 1 vélstjóri er Valdimar Valdimarsson og stýrimaður Hreinn Sveinsson.

Hrafn Sveinbjarnarson er þegar búinn að fara í tvo róðra með net og var aflinn rúm 12 tonn í fyrsta róðri og 10 tonn í þeim síðari.

Báturinn kostaði á fimmtándu milljón króna.

Svo mörg voru þau orð en eins og áður segir voru þeir 18 bátarnir sem smíðaðir voru í Boizenburg fyrir Íslendinga á árunum 1965-1967. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 er annar tveggja sem eftir eru og enn í drift. Hann heitir í dag Saxhamar SH 50. Hinn er Kristín GK 457 sem upphaflega hét Þorsteinn RE 303.

Árið 1987 fór Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 í miklar endurbætur í Skagen í Danmörku en áður hafði hann verið yfirbyggður. Breytingarnar voru helstar útlitslega að báturinn var lengdur um 4 metra og yfirbyggður, settur var á hann bakki og nýr afturendi, ný brú, ásamt íbúðum undir henni. 

Árið 1991 var sett á hann pera. Árið 2005 var skipt um aðalvélina. Aðalvél skipsins er frá Caterpillar og er 862 hestöfl að stærð eða um 643 kW að stærð.

Skráð lengd skipsins í dag er 36,1 metrar en mesta lengd er 39,46 metrar og breiddin 7,20 metrar. Skipið mælist 256 brl./393,59 brúttótonn að stærð.

Síðar hét báturinn Sigurður Þorleifsson GK 10, því næst Sæljón SU 104, þá Sjöfn ÞH 142 og síðan Sjöfn EA 142 og loks Saxhamar SH 50.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Freyja GK 364

923. Freyja GK 364 ex Kolbrún ÍS 74. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Séníverinn var eitt sinn gulur og hét Freyja GK 364 með heimahöfn í Garðinum. Eigandi Halldór Þórðarson sem gjarnan var nefndur Dóri á Freyjunni.

Báturinn var smíðaður árið 1957 í Danmörku fyrir Sigvalda Þorleifsson h/f í Ólafsfirði og hét Þorleifur Rögnvaldsson ÓF 36. Báturinn var endurbyggður frá grunni hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og lauk þeirri vinnu árið 1985 en stöðin hafði átt bátinn frá árinu 1974.

Hér má lesa nánar um það hvaða nöfn báturinn hefur borið í gegnum tíðina.

Eins og kunnugt er lenti hann í snjóflóðinu á Flateyri í janúar sl. og liggur að ég best veit hálfsokkin þar enn. En vonandi verður honum bjargað.

Samkvæmt vef Fiskistofu fékk báturinn nafnið Freyja GK 364 í marsmánuði 1995 og bar það til sumarsins 2000. Þá fékk báturinn nafnið Röstin GK 120 en árið 2010 fékk hann Orranafnið sem hann ber í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ófeigur VE 324

1179. Ófeigur VE 324 ex Árni í Görðum VE 73. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Reknetabáturinn Ófeigur VE 324 er hér að koma að bryggju á Vopnafirði, held ég. Myndina tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44.

Upphaflega hét báturinn Árni í Görðum VE 73 og var smíðaður fyrir Einar Guðmundsson h/f hjá Þorgeir & Ellert h/f á Akranesi. Hann var 103 brl. að stærð búinn 500 hestafla Alpha aðalvél.

Haustið 1983 er Árni í Görðum VE 73 seldur innanbæjar í Vestmannaeyjum og fær nafnið Ófeigur VE 324.

Árið 1989 var Ófeigur VE 324 seldur norður á Blönduós þar sem hann fékk nafnið Ingimundur gamli HU 65.

Ingimundur gamli HU 65 sökk sunnudaginn 8. október 2000 þar sem hann var að rækjuveiðum. Sæbjörg ST 7 bjargaði tveim úr áhöfn bátsins, sem þá var gerður út frá Hvammstanga, en skipstjórinn fórst með bátnum.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Pétur Jacob SH 37

1227. Pétur Jacob SH 37 ex Þrái HF 127. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1986.

Pétur Jacob SH 37, sem hér sést koma að landi í Ólafsvík, hét upphaflega Þytur NS 22 og var smíðaður árið 1972 hjá Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd.

Báturinn sem var tæplega 12 brl.. að stærð var smíðaður fyrir Þyt h/f á Vopnafirði sem gerði bátinn út í þrjú ár. Hann var búinn 120 hestafla Kelvinvél.

1975 var hann seldur til Mjóafjarðar, eigandi Þytur h/f og báturinn varð SU 89. Í desember 1976 var báturinn seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Gunnar Guðmundsson RE 19.

Árið 1979 var sett í hann 185 hestafla Cumminsvél og sumarið 1983 er hann seldur til Hafnarfjarðar þar sem hann fær nafnið Þrái HF 127.

Í desember 1984 kaupir Finnur Gærdbo í Ólafsvík bátinn og nefnir Pétur Jacob SH 37. Hann var seldur til Vestmannaeyja árið 1990 þar sem hann fékk nafnið Leó VE og ári síðar til Sandgerðis þar sem hann fékk nafnið Veiga GK 4. Það var hans síðasta nafn en báturinn var tekinn af skipaskrá 1994.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Dagstjarnan KE 3

1558. Dagstjarnan KE 3 ex Rán HF 342. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér má sjá skuttogarann Dagstjörnuna KE 3 við bryggju í Njarðvík en hún hét áður Rán HF 342.

Upphaflega hét togarinn þó C.S Forester og var smíðaður árið 1969 en keyptur hingað til lands árið 1980.

Þá sagði m.a í Ægi:

4. maí s.l. bættist nýr skuttogari í flota landsmanna, en þá kom skuttogarinn Rán HF í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét C.S. Forester, er keyptur notaður frá Englandi, og er byggður þar árið 1969 hjá skipasmíðastöðinni Charles D. Holmes & Co Ltd í Beverley, smíðanúmer 1015. C.S. Forester var einn fyrsti ísfiskskuttogari, sem Bretar byggðu til veiða á fjarlœgum miðum. Nefna má að skuttogari þessi kom talsvert við sögu í Þorskastríðinu hér við land.

Eftir að skipið kom til landsins voru gerðar nokkrar breytingar á búnaði og bœtt við tœkjum og má þar einkum nefna, að sett var sérstök vökvaknúin skutrennuloka í skipið, gerðar breytingar á lest og vinnuþilfari, bætt við þremur vökvaknúnum hjálparvindum og loran-tœkjabúnaði í brú.

Rán HF er í eigu Gnoðar h/f í Hafnarfirði, en það fyrirtœki átti áður 348 brl. síðutogara sem hét Rán GK en ber nú nafnið Ingólfur. Skipstjóri á Rán er Guðmundur Vestmann og 1. vélstjóri Marteinn Jakobsson. Framkvæmdastjóri er Ágúst G. Sigurðsson.

Togarinn var 56,54 metrar að lengd, 10.97 metra breiður og mældist 743 brl. að stærð.

Rán HF 342 var seld til Suðurnesja í marsmánuði 1981 og fékk þá nafnið Dagstjarnan KE 3. ÚA keypti Dagstjörnuna síðla árs 1987 og fékk togarinn nafnið Sólbakur EA 305.

Sólbakur EA 305 var gerður út til ársins 1992 en 12. mars það ár kom hann úr síðustu veiðiferðinni fyrir ÚA. Hann var síðan seldur úr landi til niðurrifs.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Inga NK 4

2395. Inga NK 4 ex Ásdís GK 218. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2011.

Inga NK 4 frá Norðfirði kom til Húsavíkur í marsmánuði árið 2011 en báturinn var að kanna sæbjúgnamið við Norðurland.

Ekki löngu seinna þetta ár var báturinn, sem upphaflega hét Brík BA 2 og var tæplega 30 brl. að stærð. seldur til Noregs.

Brík BA 2 var smíðuð á Ísafirði  fyrir Bílddælinga árið 2000. Seld til Suðurnesja árið 2007 og þar fékk hún Ásdísarnafnið. Seldur á Neskaupstað árið 2010 þar sem hann fékk nafnið Inga NK 4. Hún er tæplega 30 brl. að stærð.

Eins og áður segir var Inga NK 4 var seld til Noregs árið 2011 og bar fyrst nafnið Leithe N-8-G með heimahöfn í Bodø.  Árið eftir er skráningunni breytt í N-8-ME en áfram í eigu sama fyrirtækis. Fær nafnið Vea Fisk R-41-K á árinu 2014 og gerð út frá Karmøy. 

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Við bryggju í Bermeo í Baskalandi

IMO: 8737556. Izurdia Maitea. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Á ferð okkar um Baskaland sl. sumar áðum við um stund í hafnarbænum Bermeo og þá tók ég þessa mynd af fiskibátnum Izurdia Maitea sem lá þar við bryggju.

Báturinn var smíðaður árið 1998 hjá Astilleros Cardama, S.A. í Vigo og er 107 GT að stærð. Lengd hans er 27 metrar og breiddin 6,30 metrar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution