Wilson Mersin í höfn á Húsavík

Wilson Mersin við Bökugarðinn. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Í morgun kom flutningaskipið Wilson Mersin til hafnar á Húsavík eftir siglingu frá Grundartanga.

Skipið lagðist að Bökugarðinum þar sem fljótlega var hafist handa við að skipa út afurðum frá PCC á Bakka.

Wilson Mersin var smíðað árið 1981 og siglir undir kýpverskum fána með heimahöfn í Limassol.

Það mælist 3,937 GT að stærð, er 107 metra langt og 15 metra breitt.

Það hét upphaflega Ramnes en hefur heitið nöfnunum, Eemnes, Raknes og aftur Ramnes áður en það fékk núverandi nafn árið 2004.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Þegar Hera ÞH 60 kom til heimahafnar í fyrsta skipti

67. Hera ÞH 60 ex Óli Hall HU 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Hera ÞH 60 kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Húsavík 23. febrúar 2008 og voru þessar myndir teknar þá.

Hera ÞH 60 var í eigu útgerðarfélagsins Flóka ehf. en hún er 229 brúttótonna stálbátur, smíðaður í Noregi 1962.

67. Hera ÞH 60 ex Óli Hall HU 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Hera hét upphaflega Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 frá Ísafirði en lengst af Hafberg GK 377 frá Grindavík. Flóki ehf. gerði Heru út á dragnót og leysti hún dragnótabátinn Dalaröst ÞH 40 af hólmi. Báturinn hét áður Óli Hall HU 14.

67. Hera ÞH 60 kemur að bryggju. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Hera ÞH 60 er í dag í eigu Sólbergs ehf. á Ísafirði og liggur þar í höfn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Sindri VE 60 orðinn Campelo 2 í Jakobslandi

1274. Sindri VE 60 ex Páll Pálsson ÍS 102. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson 2019.

Vinnslustöðin hefur selt og afhent nýjum eigendum togarann Sindra VE-60,  útgerðarfyrirtæki í bænum Marin í sjálfstjórnarhéraðinu Galisíu eða Jakobslandi í norðvesturhluta Spánar.

Í Galisíu endar einmitt helgigönguleiðin Jakobsvegur sem margir íslenskir göngugarpar þekkja og hafa þrammað. Sindri VE valdi hins vegar sjóleiðina til nýrra heimkynna á slóðum heilags Jakobs og nefnist nú Campelo 2.

Farnist happaskipinu vel hér eftir sem hingað til segir á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Þar segir jafnframt að Sindri VE hét lengst af Páll Pálsson ÍS-102. Vinnslustöðin keypti togarann af HG í Hnífsdal og tók við honum um mánaðarmótin júlí/ágúst 2017. Sindra var ætlað að brúa bil í starfsemi VSV vegna tafa á heimkomu Breka VE frá Kína.

Skipsheitið Sindri á sér langa sögu í Vestmannaeyjum. Fiskiðjan gerði út bát með þessu nafni forðum daga og frá 1977 átti Fiskimjölsverksmiðjan og síðar Vinnslustöðin togara sem Sindri hét og gerði út fram á tíunda áratug síðustu aldar.

Japanstogari frá 1973

Páll Pálsson var einn tíu togara sem íslensk útgerðarfyrirtæki létu smíða fyrir sig í Japan og komu heim á árinu 1973. Vestmannaey VE og Páll Pálsson ÍS voru fyrst til landsins, Vestmannaey til Hafnarfjarðar 19. febrúar og Páll til Ísafjarðar 20. febrúar 1973.

Því má skjóta hér inn að löngu síðar, árið 2018, endurtók sagan sig á sinn hátt. Þá fylgdust systurskipin Breki VE og Páll Pálsson ÍS að heim frá Kína!

Vestmannaey kom sem sagt ekki beint til heimahafnar frá Japan. Ástæða þess var einfaldlega sú að eldgosið í Heimaey hófst þegar skipið var á miðju Kyrrahafi, milli Hawaiieyja og Panama. Skipverjar fengu óljósar fregnir af atburðinum í einhverjum útvarpsstöðvum en voru án talstöðvarsambands og gátu engra upplýsinga aflað sjálfir. Staðfestar fréttir bárust ekki fyrr en sólarhring síðar þegar heyrðist í Eiði Guðnasyni, fréttaritara breska útvarpsins – BBC á Íslandi. Hann sagði skilmerkilega frá því í stuttu máli hvað gerst hefði og lét þess getið að allir Eyjamenn væru heilir á húfi. Þá létti áhöfninni mjög. 

Tveir Japanstogarar eftir á Íslandi

Tveir Japanstogarar eru eftir af þeim tíu sem komu til landsins 1973: Ljósafell SU og Múlaberg ÓF (áður Ólafur Bekkur ÓF). Hinir átta voru Arnar SU, Bjartur NK, Brettingur NS, Drangey SK, Hoffell SU, Páll Pálsson ÍS, Rauðignúpur ÞH og Vestmannaey VE.

Skipsheitið Páll Pálsson á sér 80 ára sögu í útgerð í Hnífsdal. Í samantekt Kristins G. Jóhannssonar, stjórnarformanns HG-Gunnvarar, kemur fram að nýjasti Páll Pálsson, sem kom frá Kína í fyrra, hafi verið sá sjötti í röðinni með þessu heiti.

Sá fyrsti var 15 smálesta eikarbátur sem hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði 3. ágúst 1939. Hann bar nafn Páls Pálssonar í Heimabæ í Hnífsdal, föður eigandans og skipstjórans.

Páll Pálsson ÍS nr. 5 var seldur til Eyja, varð Sindri VE og nú síðast Campelo 2 í Jakobslandi.

Kallarnir á Vininum

1750. Vinur ÞH 73 ex Matthildur EA 222. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Þær myndir sem nú birtast voru teknar þann 3. september árið 2008 og sýna Vin ÞH 73 koma að landi á Húsavík og löndun úr honum.

Þann dag skrifað ég eftirfarandi á gömlu síðuna:

Þessar myndir tók ég í dag þegar netabáturinn Vinur ÞH 73 kom að landi á Húsavík. Skipstjórinn og útgerðarmaðurinn er Sigurður Sigurðsson eða Siggi stýssi eins og margir þekkja hann. Hann vantar 2-3 mánuði í áttrætt en er enn að róa, tekur sinn kvóta í netin. Siggi var lengi með fengsælustu skipstjórum síldar- og loðnuskipaflotans, stýrði m.a. Dagfara, Gísla Árna og Erninum.

1750. Vinur ÞH 73 ex Matthildur EA 222. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Vinur ÞH 73 var smíðaður af Baldri á Hlíðarenda við Akureyri árið 1986 og hét upphaflega Matthildur EA 222. Sigurður kaupir hann til Húsavíkur árið 1991 og leysti hann af hólmi eldri trillu sem Sigurður átti og bar sama nafn.

Kallarnir á Vininum við löndun. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Með Sigurði réru á Vininum þegar þetta var Arnar sonur hans og Óskar Axelsson. Arnar á Vin ÞH 73 í dag.

Óskar Axelsson að ísa aflann. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Siggi Stýssi við löndun úr Vininum. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Sigurður Sigurðsson fæddist á Skálum á Langanesi 20. desember 1928. Hann lést á Húsavík, 8. febrúar 2016.

1750. Vinur ÞH 73 ex Matthildur EA 222. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Hreifi í skveringu sumarið 2008

5466. Hreifi ÞH 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Hreifi ÞH 77 frá Húsavík er á þessum myndum í skveringu sumarið 2008.

Þarna er eigandi hans Héðinn Helgason eitthvað að bardúsa áður en borinn var botnfarvi á bátinn.

Hreifi var smíðaður fyrir Héðinn Maríusson, afa Héðins, árið 1973.

5466. Hreifi ÞH 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Sóley Sigurjóns GK 200

2262. Sóley Sigurjóns GK 22 ex Sólbakur RE 207. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019

Á þessari mynd Hólmgeirs Austfjörð frá því í gær má sjá togarann Sóley Sigurjóns GK 200 að veiðum fyrir vestan land.

Nesfiskur hf. í Garði gerir togarann út en hann hét áður Sólbakur RE 207.

Upphaflega hét togarinn Quaasiut en fékk nafnið Júlíus Havsteen ÞH 1 eftir að hann var keyptur til Íslands frá Grænlandi árið 1995. Hann kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Húsavík í síðari hluta janúarmánaðar 1996 

Júlíus Havsteen ÞH 1 var seldur Jökli h/f á Raufarhöfn sumarið 1997 og fékk nafnið Rauðinúpur ÞH 160.

Síðar Sólbakur EA 7, Sólbakur RE 207 eins og fyrrr segir og loks Sóley Sigurjóns GK 200 .

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Sigurborg SH 12

1019. Sigurborg SH 12 ex Sigurborg HU 100. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir í gærmorgun af Sigurborgu SH 12 þar sem hún var að veiðum suðvestur úr Bjargtöngum.

1019. Sigurborg SH 12 ex Sigurborg HU 100. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Sigurborg SH 12 er í eigu Soffaníasar Cecilssonar ehf. í Grundarfirði sem aftur er í eigu FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki.

Sigurborg hét upphaflega Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 frá Neskaupstað, smíðaður í Hommelvik í Noregi 1966 fyrir Múla h/f á Neskaupstað. 

1019. Sigurborg SH 12 ex Sigurborg HU 100. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

Eldur í báti á Skjálfanda 2008

1475. Sæborg ÞH 55 með 1262. Sigurpál ÞH 130 í togi. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Að morgni 2. septembers árið 2008 kom upp eldur í vélarrúmi Sigurpáls ÞH 130 á Skjálfanda.

Báturinn var um 1,5 sjm. frá Húsavík og því var stutt fyrir björgunaraðila að sigla að bátnum.

Guðbergur Rafn Ægisson formaður Björgunarsveitarinnar hafði þetta að segja við mbl.is þennan sama dag:

„Eld­ur­inn mun hafa komið upp í vél­ar­rúmi báts­ins og þegar þeir opnuðu það þá gaus eld­ur­inn upp í stýris­hús,“ sagði Guðberg­ur Ægis­son, formaður björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Garðars á Húsa­vík, stýrði björg­un­araðgerðinni er eld­ur kom upp í eik­ar­bátn­um Sig­urpáli ÞH 130.

Þriggja manna áhöfn björg­un­ar­skips Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar, Jóns Kjart­ans­son­ar frá Húsa­vík var ekki nema 12 mín­út­ur á slysstaðinn en eld­ur­inn kom upp 1,5 sjó­míl­ur frá Húsa­vík.

„Við vor­um inn­an við 5 mín­út­ur að fara þetta á hraðbátn­um okk­ar,“ sagði Guðberg­ur í sam­tali við mbl.is. 

Tveir menn voru um borð í Sig­urpáli ÞH 130 en þeir voru flutt­ir á sjúkra­hús vegna gruns um reyk­eitrun. 

Guðberg­ur sagði að áhöfn Sig­urpáls hafi verið kom­in í vesti og til­bún­ir að stökkva í sjó­inn þegar björg­un­ar­bát­inn bar að garði.

Slökkviliðs- og lög­reglu­menn höfðu farið með Sóma­bát með vatns­dælu út að bátn­um og slökkt eld­inn. Búið er að draga Sig­urpál til hafn­ar á Húsa­vík og dæla sjó upp úr hon­um.

„Það sér vel á bátn­um, hann hef­ur brunnið tölu­vert,“ sagði Guðberg­ur að lok­um.

Komið með Sigurpál ÞH 130 að bryggju á Húsavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Sigurpáll ÞH 130 hét upphaflega Sjöfn ÞH 142 frá Grenivík.

Frá aðgerðum á vettvangi. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.
Karl Halldórsson slökkviliðsmaður sveiflar landfestum. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.
Þórólfur og Jónmundur Aðalsteinssynir slökkviliðsmenn. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008
Á Skjálfandaflóa 2. september 2008.

Á myndinni hér að ofan má sjá Sæborgu ÞH 55 á fullu stími í átt að Sigurpáli ÞH 130. Slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn höfðu farið á smábátum að Sigurpáli. Slökkt eldinn og flutt skipverjana tvo í land.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Fjóla SH 7

2070. Fjóla SH 7 ex Kópur Gk 175. Ljósmynd Alfons Finnsson.

Fjóla SH 7 kemur hér að landi í Ólafsvík eftir makrílveiðiferð.

Fjóla SH 7 sem er í eigu Þórishólma ehf. í Stykkishólmi var smíðuð í Stálsmiðjunni árið 1990 fyrir Garðar Garðarsson útgerðarmann í Keflavík.

Báturinn fékk nafnið Jón Garðar KE 1. Hann var 9,7 brl. að stærð en mælist í dag 14,9 BT.

Haustið 2004 er báturinn seldur Víkurhrauni ehf. í Grindavík sem gaf honum nafnið Hraunsvík GK 75.

Um mitt ár 2007 fær hann nafnið Kópur GK 175, sami eigandi en tæpu ári síðar er hann seldur Þórishólma ehf. sem gaf honum nafnið sem hann ber í dag.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Farsæll SH 30 að veiðum

1629. Farsæll SH 30 ex Klængur ÁR 2. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Farsæll SH 30 er hér að veiðum suðvestur af Bjargtöngum í gærmorgun.

Farsæll er 177 rúmlesta/237 BT togbátur í eigu FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki.

Farsæll SH 30 hét upphaflega Eyvindur Vopni NS 70 og var smíðaður 1983 hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar h/f fyrir Kolbeinstanga h/f á Vopnafirði.

Í 9 tbl. Ægis 1983 var lýsing á Eyvindi Vopna NS 70 og sagði m.a:

19. apríl s.l. afhenti Vélsmiðja Seyðisfjarðar h.f., Seyðisfirði, nýtt 178 rúmlesta tveggja þilfara stálfiskiskip, sem hlotið hefur nafnið Eyvindur Vopni NS-70. Skipið, sem er hannað hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar er nýsmíði nr. 17 hjá stöðinni og 12. fiskiskipið sem stöðin smíðar og þriðja í röð tveggja þilfara fiskiskipa.

Borið saman við síðustu nýsmíði stöðvarinnar, Otto Wathne NS (afhent í apríl ’81) þá er Eyvindur Vopni mjög hliðstæður að byggingarlagi og fyrir- komulagi en er talsvert stœrra skip, um 3.5 m lengra, 40 cm breiðara og 15 cm dýpra að efra þilfari.

Aðalvél skipsins er frá öðrum framleiðanda og mun aflmeiri en í fyrrnefndu skipi, en helztu frávik á vélbúnaði að öðru leyti eru þau, að í skipinu er búnaður til svartolíubrennslu og öxulrafall. Svartolíubúnaður er nýmœli í ekki stœrra skipi og er þetta minnsta fiskiskip flotans með slíkum búnaði.
Eyvindur Vopni NS er í eigu Kolbeinstanga h.f. á Vopnafirði.

Skipstjóri á skipinu er Sverrir Guðlaugsson og 1. vélstjóri Sveinbjörn Sigmundsson. Framkvœmdastjóri útgerðar er Pétur Olgeirsson.

1629. Farsæll SH 30 ex Klængur ÁR 2. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Eyvindur Vopni NS 70 var gerður út frá Vopnafirði til vorsins 1995 þegar Meitillinn h/f í Þorlákshöfn keypti hann og nefndi Klæng ÁR 2.

Ári síðar, eða í mars 1996, var Klængur ÁR 2 seldur Farsæli h/f í Grundarfirði og fékk hann þá það nafn sem hann ber enn þann dag í dag. Þ.e.a.s Farsæll SH 30 og var hann samkvæmt frétt í DV áttundi báturinn í eigu útgerðarinnar sem bar þetta nafn.

Árið 2012 kaupir FISK-Seafood ehf. útgerðina og gerir Farsæl SH 30 út til togveiða.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.