Garpur SI 26

6158. Garpur SI 26 ex Garpur HU 58. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Handfærabáturinn Garpur SI 26 kemur hér til hafnar á Siglufirði síðastliðnum ágústmánuði.

Garpur er gerður út af Guðbrandi J. Ólafssyni en báturinn var keyptur til Siglufjarðar haustið 2018.

Hann var smíðaður árið 1980 og hét Kristín BA og var með heimahöfn á Reykhólum. Smíðin ór fram hjá Flugfiski hf. í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Frá árinu 1983 hefur báturinn, sem er tæplega 4 BT að stærð, borið eftirfarandi nöfn og einkennisstafi og númer:

Kristín SH 140, Kristín AK 144, Sædís SU 100, Ásdís SF 5, Hornafirði, Valberg SH 298, Hlöddi VE 98, Hlöddi VE 198 Garpur RE 58, Garpur HU 58 og Garpur SI 26.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Rúna Péturs GK 478

1572. Rúna Péturs GK 478 ex Helga Péturs GK 478. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Rúna Péturs GK 478 hét upphaflega Helga Péturs RE 88 síðar RE 478. Hún var smíðuð árið 1980 af Jóhanni S. Karlssyni í Reykjavík.

Báturinn var smíðaður fyrir Karl Leví Jóhannsson sem einnig vann að smíðinni eins og segir á vefnum aba.is en þar má lesa um bátinn.

Báturinn heitir Boði SH 184 í dag og er í núllflokki hjá Fiskistofu.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Arnþór í skverun um árið

189. Arnþór EA 16 ex Valdimar Sveinsson VE 22. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Arnþór EA 16 er þarna í skverun um árið í Slippstöðinni á Akureyri. Sandblásinn og síðan fengið bláa litinn. Liggur utan á Heimaey VE 1.

Arnþór EA 16 hét upphaflega Skarðsvík SH 205 og var smíðaður fyrir Skarðsvík hf. á Hellissandi í Austur-Þýskalandi árið 1962.

Í Morgunblaðinu 1. september 1962 sagði svo frá:

Hellissandi, 27. ágúst. 
Nýlega kom annar bátur til Hellissands fyrir Skarðsvíkina, sem fórst í vetur. Er það stálbátur, 155 lestir að stærð og eigendur sömu og áður. Þetta er glæsilegt skip með öllum nýtizku tækjum. Skarðsvík er smíðuð í Austur-Þýzkalandi.

Skipstjóri er Sigurður Kristjónsson, sami og var á gömlu Skarðsvík. Skipið fór strax á síldveiðar. Þrír bátar héðan eru á síldveiðum, og tveir á humarveiðum.

Það er skemmst frá því að segja að báturinn var seldur til Vestmannaeyja árið 1976 þar sem hann fékk nafnið Kópavík VE 404. Árið 1978 var báturinn seldur innanbæjar í Vestmanaeyjum og fékk nú nafnið Valdimar Sveinsson VE 22.

Því nafni hélt hann til haustsins 1985 er hann var seldur G. Ben sf. á Árskógssandi. Þá fékk hann nafnið Arnþór EA 16.

Arnþór EA 16 sökk 4,5 mílur austur af Hvalsnesi 12. október 1989. Áhöfnin var þá komin um borð í Sigurfara frá Ólafsfirði, og var hún ekki í hættu. Arnþór hafði fengið á sig mikla slagsíðu nóttina áður er verið var að dæla síld um borð úr nótinni. 

Miði frá Hauki Sigtryggi:

0189….Skarðsvík SH 205. TF-SO. Skipasmíðastöð: VEB Volkswerft » Ernst Thälmann « Brandenburg. 1962. Lengd: 29,58. Breidd: 6,63. Dýpt: 3,15. Brúttó: 176. Mótor 1962 Lister 495 hö. Ný vél 1972 Lister Blackstone 600 hö. Skarðsvík SH 205. Útg: Skarðsvík h.f. Hellisandi. (1962 – 1975). Skarðsvík II. SH 305. Útg: Skarðsvík h.f. Hellisandi. (1975 – 1976).

Skarðsvík II. SH 305. Útg: Guðjón Aanes. Vestmannaeyjum. (1976). Kópavík VE 404. Útg: Ledd h.f. Vestmannaeyjum. (1976 – 1978). Valdimar Sveinsson VE 22. Útg: Sveinn Valdimarsson o.fl. Vestmannaeyjum. (1978 – 1982). Valdimar Sveinsson VE 22. Útg: Sæborg s.f. Vestmannaeyjum. (1982 – 1985). Arnþór EA 16. Útg: G. Ben sf. Árskógssandi. (1985 – 1989). Sökk austur af Stokksnesi 12.10.1989. Mannbjörg.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Wilson Nice kom með trjáboli

IMO 9430959. Wilson Nice. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Flutningaskipið Wilson Nice liggur nú við Bökugarðinn á Húsavík  þar sem uppskipun á trjáboli fyrir PCC á Bakka fer fram.

Wilson Nice er 123 metra langt og 17 metra breitt, smíðað árið 2010. Það mælist 6,118 GT að stærð.

Skipið, sem siglir undir fána Möltu og með heimahöfn í Valletta, hefur áður komið til Húsavíkur með hráefni fyrir PCC.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Gimli ÞH 5

6643. Gimli ÞH 5 ex Þorfinnur EA 120. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Gimli ÞH 5 kemur hér að landi á Húsavík í dag en báturinn hét áður Þorfinnur EA 120.

Upphaflega hét hann þó Gamli Valdi RE 480 og var smíðaður í Bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði árið 1995.

1989 fékk báturinn nafnið Hrói SH 116 með heimahöfn í Stykkishólmi. Næstur árin flakkaði hann dálítið um og bar nöfnin Ósk ÓF 8, Uggi SI 13, Fundvís ÍS 882 og Stella EA 183.

Árið 2004 var báturinn keyptur frá Grímsey til Hríseyjar þar sem hann fékk nafnið Þorfinnur EA 120.

Þaðan keypti Oddur Örvar Magnússon bátinn til Húsavíkur og fékk hann nafnið Gimli ÞH 5 árið 2009.

Árið 2017 fór Gimli í gagngerar breytingar hjá Baldri Halldórssyni ehf. við Hlíðarenda á Akureyri. Báturinn var upphaflega Sómi 800 en varð Sómi 940 eftir breytingarnar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Eyrún EA 155

1094. Eyrún EA 155 ex Frosti II ÞH 220. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Eyrún EA 155, sem hér kemur til hafnar í Þorlákshöfn, var gerð út frá Hrísey á fyrrihluta tíunda áratugs síðustu aldar.

Báturinn var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn hf. Hafnarfirði og lauk smíði hans árið 1969 en þá voru sjö ár síðan smíðin hófst.

Báturinn, sem er 132 brl. að stærð, hlaut nafnið Arney SH 2 og var í eigu Eyja hf. í Stykkishólmi. Hann var smíðaður eftir sömu teikningu og (244) Gullberg VE.

Árið 1973 kaupa Óskar Þórhallsson og Dagur Ingimundarson bátinn til Keflavíkur og hann verður Arney KE 50. Norðurborg á Húsavík kaupir hann síðan árið 1977 og fékk hann nafnið Jón Sör ÞH 220.

Frostaútgerðin á Grenivík keypti bátinn árið 1978 og nefndi Frosta II ÞH 220.

Árið 1983 var báturinn yfirbyggður á Akureyri en 1991 kaupir Rif hf. í Hrísey bátinn og nefnir Eyrúnu EA 155.

Eyrún var seld til Noregs árið 1995 eftir að Rif hf. keypti Súlnafellið EA 840 sem þeir nefndu Svan EA 14.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hamrasvanur

238. Hamrasvanur SH 201 ex Hamrasvanur SH 211. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson

Hamrasvanur SH 201 hefur áður birst hér á síðunni en þó ekki þessi mynd sem Hreiðar Ogeirsson tók í Breiðafirði.

Hamrasvanur SH 201 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1964 og hét upphaflega Eldborg GK 13.

Eldborg GK 13 var smíðuð fyrir útgerðarfélagið Eldborgu h/f í Hafnarfirði en að því fyrirtæki stóð Gunnar Hermannsson.

Báturinn var 220 brl. að stærð, búinn 660 hestafla MWM aðalvél. 

Árið 1967 kaupir Þróttur h/f í Grindavík bátinn og nefnir Albert GK 31. 12. desember 1972 kaupir Mars h/f á Rifi Albert og fær hann þá það nafn sem hann ber á myndinni. Í nóvember 1978 kaupir Sigurður Ágústsson h/f í Stykkishólmi bátinn sem heldur sama nafni og númeri. 

1978 var sett ný vél 826 hestafla Lister vél í bátinn og hann yfirbyggður um leið. Mældist 168 br. að stærð.

Þegar Sigurður Ágústsson h/f keypti Oddeyrina EA 210 1996 af Samherja og nefndi Hamrasvan SH 201 fékk sá gamli nafnið Hamrasvanur II SH 261 um tíma. Sama ár var hann seldur til Hollands þar sem hann fékk nafnið Ensis KG 8. Reyndar VE 7 fyrstu mánuðina en fékk KG 8 í lok ársins.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Vestri BA 63 á Húsavík

182. Vestri BA 63 ex Grettir SH 104. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Rækjubáturinn Vestri BA 63 kom til Húsavíkur fyrir stundu en stoppaði stutt við. Hann er í þessum skrifuðu orðum nýfarinn úr höfn.

Vestri hét upphaflega Sigurður Jónsson SU 150 og er gerður út af Vestra ehf. á Patresfirði.

Haukur Sigtryggur sendi miða um árið og þar stóð:

0182…. Vestri BA 63. TF-VR. IMO-nr. 6400525. Smíðanúmer 3. Skipasmíðastöð: Karmsund Verft og Mek verksted A/S Avaldsnes. Norge. 1963. Lengd: 28,77. Breidd: 6,74. Dýpt: 3,23. Brúttó: 193. Yfirbyggt. 1988. Endurbyggt 1999. Endurbyggt 2005-2006. Mótor 1963 Lister 600 hö. Ný vél 1980 Mirrlees Blackstone 515 kw. 700 hö. Ný vél 2006 Stork Wartsila 730 kw. 993 hö. Nöfnin sem hann hefur borið: Sigurður Jónsson SU 150. – Sædís ÁR 220. – Steinanes BA 399. – Ólafur Ingi KE 34. – Grettir SH 104. – Vestri BA 63. Vestri BA 63. Útg: Vestri ehf. Patreksfirði. (2017).

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

KG fiskverkun kaupir útgerð Ólafs Bjarnasonar SH 137

1304. Ólafur Bjarnason SH 137 Ljósmynd Alfons Finnsson.

Eigendur Valafells ehf. í Ólafsvík hafa komist að samkomulagi við KG Fiskverkun ehf. um kaup þess síðarnefnda á öllu hlutafé í Valafelli ehf.

Samningar aðila eru gerðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Fiskifréttir greina frá en í tilkynningu frá KG Fiskverjun segir:

KG Fiskverkun gerir út skipið Tjald SH 270 með heimahöfn í Snæfellsbæ. Þá rekur félagið einnig fiskvinnslu í Snæfellsbæ. 

Valafell ehf. er rótgróið útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Snæfellsbæ sem rekur sögu sína allt til ársins 1961. Fyrirtækið gerir út Ólaf Bjarnason SH 137, sem er 112 lesta bátur, smíðaður á Akranesi árið 1973 og er gerður út á dragnót og net. Árið 1990 tók fyrirtækið í notkun nýtt fiskvinnsluhús og rak þar saltvinnslu til ársins 2011 en þá var saltfiskvinnslan flutt í stærra húsnæði eftir miklar endurbætur og ný tæki keypt til fiskvinnslu.

Fyrirætlanir nýrra eigenda er að efla enn frekar starfsemi sína í Snæfellsbæ.

Í tilkynningunni segja þau Björn Erlingur og Kristín: 

„Við erum mjög ánægð með að samningar hafi tekist við KG Fiskverkun og þannig tryggt að starfsemin verði áfram í heimabyggð og bindum miklar vonir við að hún verði efld enn frekar.“

„Við erum mjög þakklát fyrir það traust sem þau Kristín og Björn Erlingur hafa sýnt okkur og hlökkum til að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Daði Hjálmarsson, framkvæmdastjóri KG Fiskverkunar.