Guðmundur Ólafur í slipp á Akureyri

1020. Guðmundur Ólafur ÓF 91 ex Krossanes SU 5. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Guðmundur Ólafur ÓF 91 frá Ólafsfirði er hér uppi í slippnum á Akureyri um árið en hann var keyptur til Ólafsfjarðar í ársbyrjun 1983.

Upphaflega hét skipið Börkur NK 122 frá Neskaupstað, smíðaður í Noregi árið 1966.  Árið 1972 fékk hann nafnið Bjarni Ólafsson AK 70, lengt og yfirbyggt árið 1975. Eftir það mældist hann 288 brl. að stærð.

Árið 1977 fékk hann nafnið Arnarnes HF 52 og 1981 Krossanes SU 5 en það hét hann þegar Garðar Guðmundsson keypti hann frá Djúpavogi.

Meira síðar…

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hákon ÞH 250

1807. Hákon ÞH 250. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1989.

Nóta- og togskipið Hákon ÞH 250 frá Grenivík er hér að rækjuveiðum úti fyrir Norðurlandi sumarið 1989.

Hákon kom til landsins í desembermánuði 1987 en frá komu hans sagði svo í 4 tbl. Ægis 1988:

Nýtt nóta- og togveiðiskip bættist við fiskiskipastól Íslendinga 18. desembers.l., en þá kom Hákon ÞH 250 í fyrsta sinn til hafnar íReykjavík. Skipið var hannað hjá Skipsteknisk A/S í Noregi, og er nýsmíði númer205 hjá Ulstein Hatle íNoregi.

Hið nýja skip kemur í stað eldra skips með sama nafni, sem selt hefur verið úr landi. Skipið er meðal skrokkstærstu nótaveiðiskipa sem byggð hafa verið fyrir Íslendinga, systurskip Péturs Jónssonar RE, sem bættist við flotann fyrr á s.l. ári. Skipið er búið vinnslu- og frystibúnaði.

Eigandi Hákons ÞH er Gjögur h.f. á Grenivík. Skipstjóri á skipinu er Oddgeir Jóhannsson og yfirvélstjóri Sigurður Þorláksson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Guðmundur Þorbjörnsson.

Hákon ÞH 250 var/er 821 brl. að stærð. Lengd hans var/er 57,45 metrar og breiddin 12,50 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Bergen Diesel.

Vorið 2001 fékk Hákon nafnið Áskell EA 48 en nýr og stærri Hákon leysti hann af hólmi. Það var svo sumarið 2008 sem hann fékk nafnið Birtingur NK 119 og eigandi Síldarvinnslan.

Síðla sumars 2009 var Birtingur seldur til Grænlands og fékk þá nafnið Erika og heimahöfnin Tasilaq.

Kaupandinn var Grænlenska útgerðarfélagið East Greenland Codfish A/S en Síldarvinnslan á hlut í því fyrirtæki. 

Erika er nú undir flaggi Marakkó.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Diddó ÍS 232

369. Diddó ÍS 232 ex Diddó RE 232. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Diddó ÍS 232 hét alla tíð þessu nafni en upphaflega var hann Diddó BA 45 með heimahöfn á Patreksfirði.

Báturinn, sem var 8 brl. að stærð, var smíðaður úr furu og eik í Bátalóni í Hafnarfirði fyrir Þorstein Friðþjófsson á Patreksfirði. Hann var búinn 44 hestafla Kelvinvél. Smíðaár 1963.

Báturinn bar eins og áður segir alla tíð nafnið Diddó en einkennisstafir og númer voru þessi: Frá 1963-1980 BA 45, frá 1980-1982 KÓ 7, frá 1982-1988 RE 232, 1988-1991 ÍS 232 og AK 232 frá 1991 til ársins 1994.

Báturinn var afskráður af skipaskrá árið 1994.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Magnús SH 205

1264. Magnús SH 205 ex Steinunn SF 40. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Magnús SH 205 er hér nýskveraður að koma að bryggju í slippnum á Akranesi en báturinn var gerður út af Skarðsvík ehf. á Hellissandi.

Saga bátsins kom fram hér á síðunni á dögunum enn hann hét upphaflega Steinunn SF 10 á íslenskri skipaskrá.

Á þeim myndum sem birtust af Steinunni var hún eins og hún var fyrir breytingarnar sem gerðar voru á Seyðisfirði árið 1987. Hér er báturinn s.s yfirbyggður, með nýja brú og skutlengdur.

Vorið 1997 keypti Skarðsvík ehf. á Hellisand Steinunni sem fékk nafnið Magnús SH 205.

Sumarið 2003 varð báturinn SH 206 en þá var kominn nýr Magnús SH 205. Haustið 2004 fékk báturinn nafnið Sæmundur GK 4 eftir að hafa verið seldur til Grindavíkur.

Sæmundur fór í brotajárn erlendi árið 2014.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Rán ÞH 141

6501. Rán ÞH 141 ex Gæsi NS 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Rán ÞH 141, sem var í eigu Smára Gunnarssonar á Húsavík, var smíðuð í Bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði árið 1983 og hét upphaflega Máni RE 173.

Á árunum 1985 til 1987 var báturinn á Húsavík undir nafninu Dísa ÞH 374 en þaðan fór hann til Vopnafjarðar þar sem hann fékk nafnið Gæsi NS 77.

Það var svo árið 1990 sem báturinn kom aftur til Húsavíkur og var þar í rúmlega ár en þaðan fór hann til Akureyrar.

Báturinn hélt Ránarnafninu það sem eftir var, fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík.

Rán var afskráð í febrúar árið 2005 vegna skemmda sem höfðu orðið á bátnum. Heimild: aba.is

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Lómur SH 177

368. Lómur SH 177 ex Sif HU 39. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Lómur SH 177 kemur hér að landi í Ólafsvík um árið og ef ég man rétt var ég við það að missa af þessu tækifæri til að mynd hann.

Það skýrir kanski bílinn hér í vinstra horninu, ekki bara bílspegill þarna á ferðinni heldur góður partur bílsins sem er af Moskvitchgerð.

Lómur SH 177 hét upphaflega Dalaröst NK 25 og kom til landsins nýsmíðaður frá Danmörku vorið 1959.

Í Austurlandi 13. mars 1959 sagði svo frá komu bátsins:

Í gærkvöldi kom hingað nýr fiskibátur, smíðaður í Nyköbing Mars Danmörku eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, Keflavík. Báturinn er 69 smálestir með 360 hestafla Blackstöne Lister vél og búinn öllum nýjustu siglingatækjum m. a. Decca ratsjá.

Báturinn er mjög vandaður að öllum frágangi. Hann var aðeins 3 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Nyköbing Mors, en það er bær lítið eitt stærri en Akureyri, sem stendur við Limafjörðinn á Jótlandi.

Kom báturinn við í Færeyjum á heimleið. Skipstjóri á bátnum er Þorleifur Þorleifsson og sigldi hann honum til landsins. Fyrsti vélstjóri er Rögnvaldur Sigurðsson, en stýrimaður verður Þórður Víglundsson.

Báturinn heitir Dalaröst NK 25. Eigandi er hlutafélagið Glettingur en aðal hluthafar í því eru Eyþór Þórðarson kennari, Þorleifur Þorleifsson skipstjóri og Björgvin Jónsson kaupfélagsstjóri Seyðisfirði, sem jafnframt er framkvæmdastj. félagsins. Báturinn fór strax í morgun til Seyðisfjarðar, en fer fljótlega til Keflavíkur, en þangað er hann leigður í vetur.

Í ágústmánuði 1965 var Dalaröstin seld Meitlinum h/f í Þorlákshöfn en þar fékk hann nafnið Ögmundur ÁR 10. Í nóvember 1973 var báturinn seldur Hafliða h/f í Þorlákshöfn og fékk nafnið Guðfinna Steinsdóttir ÁR 10.

Í árslok 1976 var báturinn seldur Sif h/f á Hvammstanga og fékk hann nafnið Sif HU 39. Í nóvember 1982 kaupa Friðrik Friðriksson, Birgir Karlsson og Guðmann Jóhannsson á Hvammstanga bátinn sem heldur nafni sínu.

1978 var skipt um vél í bátnum og sett í hann 425 hestafla Caterpillar í stað Listersins.

Það er svo vorið 1983 sem Guðmundur Svavarsson og Kristinn V. Sveinbjörnsson í Ólafsvík kaupa bátinn og nefna Lóm SH 177 með heimahöfn í Ólafsvík. Heimild: Íslensk skip.

Í árslok 1988 leysti yngri og stærri Lómur SH 177 þennan af hólmi sem fékk þá um stundarsakir nafnið Lómur II.

Haustið 1989 var báturinn kominn á Brjánslæk og fékk nafnið Magnús BA 157, 1991 fékk hann nafnið Bjargey BA 407. Árið 1993 fékk báturinn sitt síðasta nafn sem var Hrauney BA 407.

Hrauney BA 407 var brennd á áramótabrennu Ísfirðinga 1999 en báturinn hafði verið dreginn vestur eftir að hafa legið lengi í Hafnarfjarðarhöfn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Erling KE 45

1361. Erling KE 45 ex Seley SU 10. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Erling KE 45, sem sést hér á myndinni fyrir ofan við bryggju á Húsavík, var smíðaður í Noregi árið 1969 en keypt hingað til lands árið 1974.

Upphaflega hét skipið Stjernøysund og var frá Hammerfest. Það var smíðað eins og áður segir árið 1969 en smíðin fór fram hjá A/S Eidsvik Skipsbyggeri í Uskedal.

Það var Smári h/f í Ólafsvík sem keypti skipið til landins og gaf því nafnið Pétur Jóhannsson SH 207. Það var 36,60 metrar að lengd, 7,47 metrar á breidd og mældist 236 brl. að stærð. Aðalvélin 700 hestafla Wichmann.

Pétur Jóhannsson var seldur Höfn h/f á Siglufirði í árslok 1976 og tæpu ári síðar austur á firði. Kaupendur voru Ingvi Rafn Albertsson, Askja h/f og Friðþjófur h/f og fékk skipið nafnið Seley SU 10 með heimahöfn á Eskifirði.

Skipið var yfirbyggt árið 1977.

Haustið 1982 var Seley SU 10 seld Saltveru h/f í Ytri-Njarðvík sem gaf henni nafnið Erling KE 45. Árið 1985 var skipt um aðalvél og kom 1100 hestafla B&W Man í skipið í stað Wichmannsvélarinnar.

Erling KE 45 var lengdur um tíu metra árið 1986 og mældist eftir það 328 brl. að stærð. Fór sú framkvæmd fram í Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Örlög Erlings KE 45 voru þau að skipið steytti á skeri skammt utan við Hornarfjarðarós aðfaranótt 12. desember 1990 og sökk.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Steinunn SF 10

1264. Steinunn SF 10 ex Klaus Hillesøy. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Steinunn SF 10 var keypt notuð frá frá Noregi og kom hún til heimahafnar á Hornafirði í októbermánuði árið 1972.

Í Tímanum 18. október 1972 sagði svo frá komu bátsins:

Nýr bátur, Steinunn SF 10, kom til Hornafj. í vikunni. Báturinn, er fjögurra ára gamall um 90 brúttólestir samkvæmt nýju mælingunni og rúmar hundrað brúttólestir samkvæmt þeirri gömlu.

Steinunn er stálbátur, keyptur hingað frá Noregi og eigandi er Skinney h.f. Á fyrirtækið annan bát með sama nafni. Skipstjóri á Steinunni er Ingólfur Ásgrímsson.

Eins og kemur fram var Steinunn 90 brl. að stærð en árið 1973 var hún lengd og mældist þá 10 3 brl. að stærð. Upphaflega var í henni 425 hestafla Caterpillar aðalvél sem önnur sömu gerðar og stærðar leysti af hólmi árið 1982.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á síldarvertíð austanlands um miðjan níunda áratug síðustu aldar og eins og sjá má er báturinn kominn með bakka og hálfyfirbyggður eins og það var kallað. Hann var síðar skutlengdur.

Árið 1987 var báturinn yfirbyggður og skipt um brú. Þessar breytingar voru gerðar hjá Vélsmiðjunni Stál á Seyðisfirði.

Haustið 1996 varð Steinunn SF 40 eftir að ný og stærri Steinunn leysti hana af hólmi og fékk SF 10. Um vorið 1997 var báturinn seldur Skarðsvík ehf. á Hellisand og fékk nafnið Magnús SH 205.

Sumarið 2003 varð báturinn SH 206 en þá var kominn nýr Magnús SH 205. Haustið 2004 fékk báturinn nafnið Sæmundur GK 4 eftir að hafa verið seldur til Grindavíkur.

Sæmundur GK 4 fór erlendis í brotajárn árið 2014.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Kristín nýkomin úr skveringu

2461. Kristín ÞH 15 ex Elvis GK 60. Ljósmynd Hörður Ingimar Þorgeirsson 2021.

Raufarhafnarbáturinn Kristín ÞH 15 er komin heim eftir að hafa verið í skveringu á Siglufirði að undanförnu.

Það Rán ehf. sem gerir bátinn út en að því fyrirtæki stendur Hörður Ingimar Þorgeirsson.

Hörður keypti bátinn frá Grindavík sumarið 2015. Þar hét hann Elvis GK 60 en hafði áður borið nöfnin Sandra HU 336, Sandra GK 86 og Elvis GK 80 en það nafn fékk hann árið 2007.

En upphaflega hét báturinn, sem er af gerðinni Sómi 1000, Óli Bjarnason EA 279 og var smíðaður árið 2000 í Bátasmiðju Guðmundar ehf. í Hafnarfirði. Óli Bjarnason EA 279 var smíðaður fyrir feðgana Óla Hjálmar Ólason og Óla Bjarna Ólason í Grímsey sem áttu bátinn til ársins 2007.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

FISK Seafood kaupir útgerðarfélagið Ölduós

2718. Dögg SU 118 ex Dögg SF 18. Ljósmynd Sigurður Davíðsson 2019.

Gengið hefur verið frá samningi um kaup FISK Seafood á útgerðarfélaginu Ölduósi ehf. á Höfn í Hornafirði og um leið á krókaaflamarksbáti félagsins, Dögg SU 118.

 Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu frá FISK Seafood segir að aflaheimildir Daggar séu um 700 þorskígildistonn og eru heildarverðmæti viðskiptanna ríflega 1.8 milljarður króna. Dögg hefur til þessa verið gerð út frá Stöðvarfirði munu seljendur bátsins ljúka þessu fiskveiðiári með áhöfn sinni áður en afhending hins selda fer að fullu fram.

Með kaupunum styrkir útgerð FISK Seafood rekstur sinn og hlutdeild í bolfiskvinnslu félagsins. Þorskveiðikvótinn eykst um tæplega 5% og gera má ráð fyrir að viðbótaraflinn samsvari tveggja til þriggja vikna afkastagetu landvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og Snæfellsnesi. Dögg SU 118 er smíðuð hjá Trefjum árið 2007. Báturinn er tæplega 15 brúttótonn, 11,5 brúttórúmlestir og ríflega 11 metrar að lengd.

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood: „Með þessum viðskiptum er FISK Seafood að fikra sig inn í smábátaútgerð á línu og skak og ef vel tekst til munum við halda áfram að byggja okkur upp á því sviði. Vertíðarbátarnir yrðu kærkomin viðbót við það aukna líf sem höfnin hér á Sauðárkróki hefur öðlast á undanförnum árum og þetta fyrsta skref með kaupunum á Dögg verður strax mikil styrking fyrir landvinnsluna og verðmætin sem hún er að skapa á hverjum degi.“

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution