
Skuttogarinn Kaldbakur var smíðaður í San Juan skammt frá San Sebastian á Norður-Spáni fyrir Útgerðarfélag Akureringa h/f.
Kaldbakur kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Akureyri í desembermánuði 1974 en á efstu og neðstu myndum sem nú birtast er hann að leggja upp í veiðiferð frá Akureyri 14. apríl árið 2012.
Í 1. tbl. Ægis árið 1975 var sagt frá þessum nýja togara Akureyringa og þar kom m.a þetta fram:
19. desember s.l. kom skuttogarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Kaldbakur EA er 4. skuttogarinn sem Útgerðarfélag Akureyringa h. f. eignast og fljótlega mun sá 5. bætast við, Harðbakur EA. Kaldbakur EA er smíðaður hjá spönsku skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A., Pasajes de San Juan og er smíðanúmer 313.
Áður hafði stöðin smíðað fjóra skuttogara fyrir Íslendinga eftir sömu teikningu. Fyrsti skuttogarinn af þessari gerð var Bjarni Benediktsson RE 210 (sjá 2. tbl. ’73), en hinir þrír eru Júní GK, Snorri Sturluson RE og Ingólfur Arnarson RE. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Kaldbak frá fjórum fyrstu og má þar helzt nefna véla og vindubúnað, sem er af annarri gerð.
Stóru Spánartogararnir voru sex að tölu og komu til landsins á árunum 1973-1975. Kaldbakur EA 301 og Harðbakur EA 303 komu til Akureyrar, BÚH fékk Júní GK. BÚR fékk Bjarna Benediktsson RE 210 , Snorra Sturluson RE 219 og Ingólf Arnarson RE 201 sem nú er einn eftir og heitir í dag Blængur NK 125.
Eins og fram kemur var Kaldbakur upphaflega EA 301 og það var hann til ársins 1999 þegar hann var skráður EA 1. Árið 2004 er Brim h/f orðinn eigandi Kaldbaks en hann heldur nafni og númeri til ársins 2009. Þá fær hann nafnið Sólbakur EA 1.
Árið 2011 fær togarinn sitt gamla nafn aftur en er áfram EA 1 og kominn aftur í eigu Útgerðarfélags Akureringa ehf. á Akureyri.

Það er svo í upphafi ársin 2017 sem hann verður aftur Sólbakur enda von á nýjum Kaldbak EA 1 sem var í smíðum í Tyrklandi. Sólbakur varð EA 301 og þannig fór hann frá landinu áleiðis til Ghent í Belgíu þar sem togarinn fór í brotajárn. Það var haustið 2018.

Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 4. mars 2017.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can wiew them in higher resolution