Strákur SK 126

1100. Strákur SK 126 ex Strákur ÍS 26. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2007.

Dragnótabáturinn Strákur SK 126 kemur hér að landi á Húsavík þann 4. september árið 2007.

Hann hafði verið að veiðum í Öxarfirði og kom til löndunar á Húsavík. Strákur SK 126 var í eigu Litlamúla ehf.

Strákur SK 126 hét upphaflega Siglunes SH 22 frá Grundarfirði. Smíðaður hjá Þorgeir og Ellert h/f árið 1970 fyrir Hjálmar Gunnarsson útgerðarmann.

Siglunesið var selt Meleyri h/f á Hvammstanga 1982 og varð við það HU 222. Bræðurnir Aðalsteinn Pétur og Óskar Eydal Aðalsteinssynir á Húsavík kaupa bátinn árið 1987 og varð hann þá ÞH 60.

Eftir að báturinn var seldur frá Húsavík hét hann áfram Siglunes, fyrst SH 22 og síðan HF 26. Því næst Erlingur GK 212, Erlingur GK 214, Sigurbjörg Þorsteins BA 65, Strákur ÍS 26 og loksins Strákur SK 126 sem varð hans síðasta nafn.

Strákur SK 126 sigldi sína síðustu ferð þegar hann fór til Esbjerg í Danmörku til niðurrifs. Hafði hann annan fyrrum húsvíkskan bát í slefi yfir hafið og lögðu þeir upp frá Krossanesi við Eyjafjörð sumarið 2008. Þar var um að ræða Jón Steingrímsson RE 7 sem upphaflega hét Dagfari ÞH 40.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Helga María AK 16

Helga María AK 16 ex Haraldur Kristjánsson HF 2. Ljósmynd Óskar Franz 2018.

Skuttogari HB Granda, Helga María AK 16, kemur hér til hafnar í Reykjavík í sumar og tók Óskar Franz þessa mynd af henni.

Helga María var smíðuð árið 1988 í Flekkefjord í Noregi. Hún var smíðuð  fyrir Sjólastöðina í Hafnarfirði  hét upphaflega Haraldur Kristjánsson HF 2.

Árið 1999 var Haraldur Kristjánsson HF 2 seldur til Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og fékk skipið þá núverandi nafn, Helga María AK 16.

Helga María var frystitogari en var breytt í ísfiskstogara í Alkorskipasmíðastöðinni í Gdansk árið 2013 og hóf veiðar sem slíkur árið 2014.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Hópsnes GK 77

2318. Hópsnes GK 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Stakkavík ehf í Grindavík hefur átt nokkra smábáta frá Mótun ehf. sem hafa nafnið Hópsnes GK 77.

Sá sem er hér fyrir ofan var smíðaður 1999. Gáski 900d og mældist 6 brl. að stærð. Seldur austur á Neskaupstað 2003 þar sem hann fékk nafnið Sær NK 8. 2014 var hann Sær HF 138.

2580. Hópsnes GK 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2005.

Næsta Hópsnes GK 77 var af gerðinni Gáski 1150 og var smíðaður árið 2003. Báturinn er 11,4 brl. að stærð og heitir Smári ÓF 20 í dag.

Árið 2006 var hann keyptur til Bakkafjarðar þar sem hann fékk nafnið Digranes NS 123. Það nafn bar hann bar þar til að hann fékk núverandi nafn í maímánuði árið 2017.

2673. Hópsnes GK 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Þriðja Hópsnesið frá Mótun ehf. kom árið 2006 og er af gerðinni Gáski 1280, 12 brl. að stærð.

Árið 2014 kaupir Sólrún ehf. á Árskógssandi Hópsnesið sem fær nafnið Særún EA 251. Í haust var Særún seld austur á Breiðdalsvík þar sem báturinn fékk nafnið Elli P SU 206 í eigu Gullrúnar ehf.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

FISK Seafood kaupir Vörð og Áskel

2740. Vörður EA 748. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2009.

Fisk Sea­food ehf. gekk í dag frá kaup­um Verði EA 748 og Áskeli EA 749 af Gjögri hf. á Greni­vík. 

Einnig keypti Fisk Sea­food tæp­lega 660 tonn af afla­heim­ild­um Gjög­urs. Verðmæti viðskipt­anna miðað við nú­ver­andi geng­is­skrán­ingu eru tæp­ir 1,7 millj­arðar króna.

Mbl.is greinir frá þessu.

Eft­ir kaup­in verða afla­heim­ild­ir FISK tæp­lega 23 þúsund tonn eða um sex pró­sent af út­hlutuðum afla­heim­ild­um fisk­veiðiárs­ins 2018/​2019. Skip­in verða af­hent í júlí á næsta ári og um sama leyti fær Gjög­ur tvö ný skip til af­hend­ing­ar.

Vörður var smíðaður árið 2007 hjá Nords­hip í Póllandi og er skipið tæp­lega 29 metr­ar að lengd, rúm­lega tíu metr­ar að breidd, 285 rúm­lest­ir og 485 brútt­ót­onn að þyngd. Áskell er stál­skip, smíðað hjá skipa­smíðastöðinni Ching Fu í Tæv­an árið 2009. Skipið eru tæp­ir 29 metr­ar að lengd, rúm­lega níu metra breitt og 362 brútt­ót­onn að þyngd.

Skip­in voru seld án kvóta en í sér­stök­um viðskipt­um með afla­heim­ild­ir keypti FISK af Gjögri tæp­lega 350 tonn í ufsa og 245 tonn í djúpkarfa auk smærri heim­ilda í löngu, blálöngu, keilu, skötu­sel og þykkval­úru.

Í til­kynn­ingu frá FISK Sea­food seg­ir að skipa­kaup­in séu liður í end­ur­nýj­un og end­ur­skipu­lagn­ingu á flota fé­lags­ins. Með nýj­um skip­um í stað hinna eldri eykst ör­yggi um borð og aðbúnaður batn­ar til muna. „End­ur­nýj­un er einnig ætlað að efla hag­kvæmni í rekstri, fjölga heppi­leg­um fiski­miðum með til­heyr­andi fjöl­breytni veiðanna, bæta meðferð afl­ans og auka um leið verðmæti hans,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. mbl.is

2749. Áskell EA 749 ex Helga RE 49. Ljósmynd Jón Steinar 2018.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Júlíus Havsteen ÞH 1

2262. Júlíus Havsteen ÞH ex Quaasiut II. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1996.

Júlíus Havsteen ÞH 1 kom til heimahafnar á Húsavík í lok janúar 1996 en skipið hafði verið keypt frá Grænlandi.

Samið var um kaupin á togaranum sem keyptur var frá Grænlandi um mitt ár 1995 og birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu þann 15. júlí það ár:

Útgerðarfyrirtækið Höfði Húsavík hefur skrifað undiur samninga um kaup á rækjufrystitogara frá Grænlandi. Skipið er um 400 tonn, smíðað í Danmörku árið 1987. 

Höfði á fyrir skuttogarann Júlíus Havsteen ÞH-1 og bátana Aldey ÞH- 110 sem er um 100 brúttórúmlestir og eikarbátinn Kristey ÞH- 25 sem er 50 brúttórúmlestir.

Að sögn Kristjáns Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Höfða, er ekki ljóst hvort Júlíus Havsteen fer úr rekstri í stað nýja skipsins en verið er að vinna í hvernig kvótamál verða leyst. 

Nýja skipið er að sögn Kristjáns í góðu ásigkomulagi. 

Það á að koma til landsins í desember og fer fyrst í slipp hjá Slippstöðinni-Odda á Akureyri áður en Höfði tekur við því. Hann sagðist reikna með 15 manna áhöfn á skipinu.

Júlíus Havsteen ÞH 1 var seldur Jökli h/f á Raufarhöfn sumarið 1997 og fékk nafnið Rauðinúpur ÞH 160.

Síðar Sólbakur EA 7, Sólbakur RE 207 og því næst Sóley Sigurjóns GK 200 sem er það nafn sem togarinn ber í dag.

2262. Júlíus Havsteen ÞH 1 ex Quaasiut II. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1996.

Með því að smella á myndirnar má skoða þær í hærri upplausn.

Wilson Mersin

Wilson Mersin ex Ramnes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Wilson Mersin kom til Húsavíkur snemma í morgun með hráefnisfarm til PCC á Bakka.

Wilson Mersin var smíðað árið 1981 og er 107 metra langt og 15 metra breitt. Mælist 3,937 GT að stærð.

Skipið siglir undir fána Kýpur með heimahöfn í Limassol.

Eins og áður segir var skipið smíðað árið 1981 og hét það Raknes til ársins 1986 er það fékk nafnið Eemnes. 1992 fékk það aftur nafnið Raknes og 1995 fékk það nafnið Ramnes. Það nafn bar skipið uns það fékk núverandi nafn árið 2004. (Shipspotting.com)

Með því að smella á myndina má skoða hana í hærri upplausn.

Hrafn Sveinbjarnarson III GK 11

103. Hrafn Sveinbjarnarsonn III GK 11. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hrafn Sveinbjarnarson III GK 11 kemur hér að landi í Grindavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Báturinn var smíðaður í Uksteinvik í Noregi árið 1963 hjá skipasmíðastöðinni M. Kleven Mek. Verksted AS.í Ulsteinvík.

Þorbjörn h/f í Grindavík lét smíða skipið og átti það alla tíð uns það strandaði við Hópsnes við Grindavík og ónýttist 12.febrúar 1988. Mannbjörg varð.

Hrafn Sveinbjarnarson III GK 11 var lengdur og yfirbyggður 1982. Eftir það mældist hann 175 brl. að stærð.

Þá var skipt um aðalvél 1978, í stað 450 hestafla Stork kom 750 hestafla Caterpillar.

Með því að smella á myndina er hgæt að skoða hana í hærri upplausn.

Sandvík EA 200

2274. Sandvík EA 200 ex Sandvík SH 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2013.

Sandvík EA 200 var gerð út um nokkurra ára bil frá Hauganesi en hún var í eigu sömu aðila og eiga Níels Jónsson EA 106.

Sandvík SK 188 var smíðuð á Ísafirði 1996 hjá Skipasmíða-stöðinni hf. fyrir útgerðarfyrirtækið Tind ehf. á Sauðárkróki.

Árið 2001 er báturinn seldur til Stykkishólms þar sem hann verður Sandvík SH 53. Hann var lengdur árið 2005 og árið 2008 er hann orðinn SH 4.

Sandvík SH 4 var seldur á Hauganes vorið 2013 og er efri myndin tekin um haust sama ár en þá hét báturinn Sandvík EA 200.

Neðri myndin var tekin í lok febrúarmánaðar árið 2014 en haustið 2016 kaupir Hjallasandur ehf. á Hellisandi bátinn frá Hauganesi.

Fékk Sandvíkin nafnið Bára SH 27 sem hann ber enn þann dag í dag. Bára er 44 BT að stærð.

2274. Sandvík EA 200 ex Sandvík SH 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2014.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Þorleifur EA 88

1434. Þorleifur EA 88 ex Hringur GK 18. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2009.

Þorleifur EA 88 er á þessum myndum á dragnótarveiðum á Skjálfanda í septembermánuði árið 2009.

Um Þorleif EA 88 skrifaði ég á gömlu síðuna mína árið 2006:

Þorleifur EA 88 mælist 73 brl. að stærð eða 77 bt. Upphaflega var þessi bátur miklu mun minni eða 30 brl. að stærð,smíðaður á Seyðisfirði 1975.

Hildur Stefánsdóttir ÞH 204 hét hann með heimahöfn á Raufarhöfn allt til ársins 1979 að hann er seldur til Dalvíkur og fær nafnið Tryggvi Jónsson EA 26.

Síðar er hann seldur til Þorlákshafnar þar sem hann heitir Kristín ÁR 101 og þaðan til Hólmavíkur þar sem hann fær nafnið Ásdís ST 37. Eigandi hans á Hólmavík var Bassi hf. og lætur fyrirtækið endurbyggja bátinn í Ósey 1997 og eftir það mælist hann 73 brl./77bt. að stærð.

Aðalsteinn Einarsson, eða Alli á Hringnum, kaupir svo bátinn til Hafnarfjarðar þar sem hann fær að sjálfsögðu nafnið Hringur GK 18.

1434. Þorleifur EA 88 ex Hringur GK 18. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2009.

Sigurbjörn ehf. í Grímsey kaupir bátinn og nefnir hann Þorleif EA 88 og kom hann til heimahafnar í júní árið 2005.

1434. Þorleifur EA 88 ex Hringur GK 18. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2009.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.