Hálf öld síðan Kristbjörgin var afhent frá Skipavík

1420. Kristbjörg ÞH 44. Ljósmynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar.

Um þessar mundir eru fimmtíu ár síðan Skipavík hf. í Stykkishólmi afhenti Korra hf. á Húsavík nýsmíði sem gefið var nafnið Kristbjörg ÞH 44.

Ekki hef ég séð né fundið myndir frá komu hennar til heimahafnar á Húsavík en mig minnir að það hafi verið í myrkri en þetta var fyrir hálfri öld svo kannski er þetta misminni.

Í Morgunblaðinu 21 . mars 1975 sagði svo frá:

Skipasmíðastöðin Skipavik h.f. í Stykkishólmi afhenti nýlega 45 rúmlesta fiskibát, Kristbjörgu ÞH 44, nýsmiði stöðvarinnar nr. 14. Eigandi bátsins er Korri h.f. á Húsavík. Báturinn er smíðaður úr eik og er sá 7. í röðinni, sem Skipasmíðastöðin Skipavík smíðar sömu gerðar eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Báturinn er útbúinn til veiða með línu, net, nót og botnvörpu.

Öll skipasmíði, innréttingar og raflagnir eru unnar I Skipasmíðastöðinni Skipavík. Vélsmiðja Kristjáns Rögnvaldssonar annaðist alla járnsmíðavinnu og niðursetningu véla. Yfirsmiður við smíði bátsins var Þorsteinn Björgvinsson.

Í bátnum er 360 hestafla Caterpillar aðalvél með Ulstein skiptiskrúfu, 26 hestafla Farymanljósavél og tveir rafalar 13,6 kw. Báturinn er búinn mjög fullkomnum siglinga- og fiskileitartækjum.

Báturinn heldur frá Stykkishólmi til heimahafnar, Húsavíkur og mun hefja veiðar þaðan þegar eftir heimkomu. Skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 er Sigurður Olgeirsson. Framkvæmdastjóri Korra h.f. er Olgeir Sigurgeirson.

Skipasmíðastöðin Skipavík hefur þegar hafið smíði á næsta bát sömu gerðar og m/b Kristbjörg.

Korri hf. átti bátinn í sautján ár eða til 1992 og síðan þá hefur hann borið nöfnin Kristey ÞH 25, Atlanúpur ÞH 270, Keilir GK 145, Keilir SI 145 og Örkin en það nafn ber hann í dag eftir að hafa verið gerður upp sem skemmtibátur.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Færðu inn athugasemd