
Nótaskipið Guðmundur VE 29 kemur hér að landi í Krossanesi um árið en hann var upphaflega RE 29 á íslenskri skipaskrá.
Guðmundur var smíðaður árið 1968 hjá Karmsund Verft & og Mek AS á Karmøy í Noregi fyrir Br. Giertsen & Co. A/S, Bergen. Hét upphaflega Senior B-33-B en þegar hann var keyptur hingað til lands árið 1972 var hann Senior H 033.
Guðmundur RE 29, var í eigu skipstjóranna Hrólfs Gunnarssonar og Páls Guðmundssonar og Fiskiðjunnar s/f í Keflavík, var yfirbyggður árið 1975. Þess má til gamans geta að það var sama aðalvélin í skipinu alla tíð.
Árið 1983 kaupir Hraðfrystistöð Vestmannaeyja Guðmund sem verður VE 29. Síðar var skipt um brú og sett perustefni á Guðmund ásamt nýju frammastri.
Í fréttum sumarið 1998 mátti m.a lesa að nótaskipið Guðmundur VE sé komið undir grænlenskan fána og fékk skipið nafnið Tunu GR 18-95 og heimahöfn þess var Ammassalik.
Guðmundur VE 29 var seldur til Grindavíkur árið 2004 en einhverju árum áður hafði hann komið aftur inn á íslenska skipaskrá. Grindvíkingur GK 606 fór hina leiðina og fékk nafnið Guðmundur VE 29.
Það var Þorbjörn hf. í Grindavík, þá Þorbjörn-Fiskanes, sem keypti skipið og nefndi Sturlu GK 12 en hún var gerð út til línuveiða alla tíð.
Þegar ný Sturla GK 12 kom í flota Þorbjarnarins sumarið 2020 fékk sú gamla GK 124.
Sturla GK 124 var seld til Litháen haustið 2020 þar sem hún fór í brotajárn.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution