Árni Sigurður AK 370

1413. Árni Sigurður AK 370. Ljósmynd Jón Páll Ásgeirsson.

Árni Sigurður AK 370 var smíðaður árið 1975 hjá Baatservice Verft A/S í Mandal í Noregi og var eitt fjögurra skipa í raðsmíði stöðvarinnar fyrir íslenska aðila.

Hin voru Gullberg VE 292, Huginn VE 55 og Skarðsvík SH 205.

Í Morgunblaðinu 26. febrúar 1975 sagði svo frá komu skipsins:

V/S Árni Sigurður Ak-370 kom til hafnar hingað i gær frá Noregi, en þar var skipið byggt. Það er 347 lestir að stærð, búið til hringnótar-, tog- og línuveiða. 

Aðalvél þess er af Wichmann- gerð, 1250 hö. Rafvélar eru tvær af Skania gerð, og auk þeirra er ljósavél, sem aðeins er notuð þegar skipið liggur í höfn. 

Ísframleiðsluvél er framleiðir 6 lestir á sólarhring, olíudrifnar hliðarskrúfur, sjóeymingarvél og veltitankar eru einnig í skipinu. Ganghraði er 12 mílur á klukkustund. Veltitankarnir reyndust mjög vel á heimsiglingunni, en skipið hreppti þá storm og stórsjó. Annars er það búið öllum nýjustu fisksjár-, öryggis- og siglingartækjum. Verð skipsins er 9,2 milljónir n. kr.

Eigandi Árna Sigurðar er hlutafélagið Sigurður, en hluthafar eru m.a. Þórður Sigurðsson sonur Sigurðar heitins Hallbjarnarsonar frá Tungu, og Einar Árnason sonur Árna Sigurðssonar frá Sóleyjartungu, en Einar var skipstjóri á heimsiglingunni. — Þeir Árni og Sigurður voru vel þekktir skipstjórar og útvegsmenn hér á þeim tímum, þegar þorskurinn var aðallega veiddur á línu og „náði máli“ (málfiskur var 22 tommur), og þegar varaseiðin dormuðu í stórum torfum við kletta og bátabryggjur.

Haraldur Ágústsson skipstjóri mun stjórna Árna Sigurði á loðnuveiðum, og heldur hið nýja glæsilega skip á þær veiðar næstu daga.

Árni SIgurður var síðar lengdur og yfirbyggður.

Síðla sumars 1979 urðu eigendaskipti á skipinu þegar Haraldur Böðvarsson & Co hf. og Guðjón Bergþórsson, skipstjóri keyptu skipið sem fékk nafnið Sigurfari AK 95.

Árið 1984 keypti Haraldur Böðvarsson & Co hf. hlut Guðjóns og gaf skipinu nafnið Höfrungur AK 91.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Færðu inn athugasemd